Launastefna Sjúkrahússins á Akureyri er að greiða laun sem taka mið af þeim kröfum sem starfið gerir um þekkingu, hæfni og ábyrgð í samræmi við starfsmat stofnunarinnar og samrýmast gildandi lögum, reglum og kjarasamningum.
1. Launastefnan er hluti af mannauðsstefnu sjúkrahússins.
2. Umfang og eðli starfs hefur áhrif á laun og ræðst af fjölmörgum þáttum, svo sem reynslu, þekkingu, hæfni, ábyrgð, álagi, mannaforráðum, menntun, samstarfshæfileikum, stjórnun og verkefnum.
3. Forsendur launaákvarðana eru að þær séu í samræmi við launastefnu sjúkrahússins, studdar rökum og tryggi að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf.
4. Starfslýsingar skulu vera til fyrir öll störf. Þar skulu koma fram allir meginþættir starfs, svo sem kröfur um menntun, hæfni, reynslu og þá ábyrgð sem í starfinu felst.
5. Sjúkrahúsið mun tryggja öllum starfsmönnum þess jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að ómálefnalegur launamunur sé ekki til staðar. Tryggja skal öllum jafna möguleika til starfa, ábyrgðar, launa, stöðuhækkana, endurmenntunar og starfsþjálfunar.
Jafnlaunastefna sjúkrahússins á Akureyri
Allir starfsmenn skulu njóta jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að ómálefnalegur launamunur sé ekki til staðar.
Til að framfylgja jafnlaunastefnunni skuldbindur Sjúkrahúsið á Akureyri sig til að skjalfesta, innleiða, viðhalda og bæta stöðugt stjórnun jafnlaunakerfisins í samræmi við kröfur ÍST 85:2012 og ákvarða hvernig kröfur hans verða uppfylltar. Sjúkrahúsið hefur innleitt verklag og skilgreint viðmið við ákvörðun launa þar sem hver og einn fær greitt fyrir starf sitt út frá verðmæti þess óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum.
Sjúkrahúsið leggur áherslu á að vera eftirsóttur vinnustaður og að starfsmenn óháð kyni hafi jöfn tækifæri í starfi.
Til þess að ná því fram mun Sjúkrahúsið á Akureyri m.a.:
- Innleiða vottað jafnlaunakerfi sem byggist á jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012, það skjalfest og því viðhaldið.
- Tryggja að jafnlaunastefnan sé unnin í samræmi við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
- Framkvæma reglulega launagreiningu þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf og athugað hvort mælist ómálefnalegur munur á launum eftir kyni.
- Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti.
- Gera innri úttektir og halda rýni stjórnenda árlega.
- Fylgja viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta hlítingu við lög.
- Kynna jafnlaunastefnu, markmið og niðurstöður launagreiningar árlega fyrir starfsmönnum sjúkrahússins.
- Birta jafnlaunastefnu á innri og ytri vef sjúkrahússins.
Samþykkt 19. september 2019.