Upplýsingatæknideild rekur tölvukerfi sjúkrahússins, netþjóna, netkerfi, vinnustöðvar og jaðartæki. Deildin tryggir öryggi gagna með fyrirfram ákveðnum verkreglum eftir viðurkenndum gæðastöðlum og ber ábyrgð á því að allir miðlarar og hugbúnaður séu í viðunandi ásigkomulagi. Netþjónar eru í öruggu kerfisrými og mikil áhersla er lögð á öryggismál og almennt tölvuöryggi notenda. Eftirlit með stjórnun aðgengis að upplýsingakerfum og eftirlit með afritun er í umsjón deildarinnar.
Deildin sér um innkaup á tölvubúnaði og jaðartækjum, hefur umsjón með greiningu á þörfum og tæknilegum kröfum, vali og innleiðingu lausna á sviði upplýsingatækni. Þekking og reynsla innan deildarinnar er mjög sérhæfð hvað varðar þjónustu klínískra hugbúnaðarkerfa. Kerfi eru oft á tíðum flókin og krefjast víðtækrar þekkingar. Upplýsingatæknideild rekur þjónustuborð sem annast símaþjónustu gagnvart notendum tölvukerfisins sem og móttöku, greiningu og fyrsta stigs úrlausn verkbeiðna.
Forstöðumaður er Árni Kár Torfason
Símanúmer deildar er 463-0199 og netfang tolvudeild@sak.is
Uppfært: mið 3.jan 2018