Forstöðuhjúkrunarfræðingur: Inga Margrét Skúladóttir
Staðgengill forstöðuhjúkrunarfræðings: Þórdís Rósa Sigurðardóttir
Almenn göngudeild skiptist í nokkrar þjónustueiningar með margvíslega þjónustu frá 8-16 virka daga fyrir einstaklinga 18 ára og eldri af báðum kynjum og eftir atvikum fyrir börn og unglinga. Þjónustusvæðið nær yfir Norður- og Austurland.
Móttaka dagsjúklinga
Á mánudögum og þriðjudögum eru einungis blóðmeina- og krabbameinslyfjameðferðir og ýmsar stoðmeðferðir tengdar krabbameinum sem krabbameinssérfræðingar frá Landspítala háskólasjúkrahúsi bera ábyrgð á.
Frá miðvikudegi til föstudags eru lyfjameðferðir við margs konar langvinnum sjúkdómum, blóð- og blóðhlutagjafir, uppvinnsla á sjúkdómum, fræðsla og kennsla tengd ýmsum rannsóknum og lyfjagjöfum.
Meltingarspeglun
Einingin tekur á móti einstaklingum sem þurfa að gangast undir rannsóknir eða aðgerðir í gegnum holsjá á meltingarvegi.
Þvagfæra- og aðgerðastofa
Á stofunni eru gerðar litlar aðgerðir svo sem blettatökur, ýmis konar sýnatökur, þvagfærarannsóknir, þvagfæraspeglanir, ísetningar- og skipti á ofanklyftarleggjum, augnlokaþrymilsnám og leghálsspeglanir.
Sáramóttaka
Á móttökunni er veitt sérhæfð meðferð við sárum eins og langvinnum fótasárum af margvíslegum toga, bráðasárum eins og eftir slys, bruna og aðgerðir.
Sérfræðilæknar sjúkrahússins veita ráðgjöf á sáramóttökunni eftir þörfum.
Sykursýkimóttaka
Umfang sykursýkimóttökunnar er að breytast, búið er að auka stöðugildi hjúkrunarfræðings og í náinni framtíð verður sett upp móttaka í innkirtlasjúkdómum með þverfaglegt samstarf hjúkrunarfræðings, næringarráðgjafa og læknis.
Á móttökunni er veitt fræðsla og eftirfylgni með skjólstæðingum með sykursýki.
Næringarráðgjöf
Næringarráðgjafi veitir skjólstæðingum sem eru á legudeildum eða göngudeildum sjúkrahússins þjónustu og er hann starfandi aðra hverja viku á deildinni
Ljósameðferð
Meðferð er veitt skjólstæðingum með ýmsa húðkvilla eins og Psoriasis, exem, D-vítamín skort og skjallbletti (Vitiligo).
Blóðþynning
Hjúkrunarfræðingar sjá um eftirfylgni blóðrannsókna, ráðgjöf, fræðslu og ákvörðun á lyfjaskammti tengt blóðþynningu ferlisjúklinga. Samstarf er við lyflækna sjúkrahússins.
Móttaka hjúkrunarfræðinga með hjartafræðslu
Hjúkrunarfræðingar á lyflæknissviði veita skjólstæðingum sem hafa farið í hjartaþræðingu eða hjartaaðgerð fræðslu og eftirlit alla miðvikudaga. Tvisvar sinnum á ári er boðið upp á fræðsludagskrá fyrir skjólstæðinga og aðstandendur þeirra, þeim að kostnaðarlausu.
Hjúkrunarfræðingarnir vinna í samráði við hjartasérfræðinga á lyflækningasviði og við Hjarta- og lungnastöðina á Bjargi.
Móttaka hjúkrunarfræðinga fyrir stóma sjúklinga
Tveir hjúkrunarfræðingar á skurðlækningadeild hafa það sérverkefni að aðstoða þá einstaklinga sem hafa fengið stóma. En þeir starfa við deildina annan miðvikudag í mánuði frá kl. 15-16.
Stómaþegar geta pantað sér tíma þurfi þeir á aðstoð að halda ásamt því að hjúkrunarfræðingar gefa tíma.
Stoðtækjafræðingur og sjóntækjafræðingur
Hafa samning um leigu á aðstöðu og veita þjónustu. Stoðtækjafræðingur kemur að jafnaði tvisvar sinnum í mánuði en sjóntækjafræðingur að jafnaði tvisvar á ári.
Sérfræðimóttaka
Eftirtaldir aðilar veita þjónustu:
Gigtarsérfræðingur, hjartasérfræðingar, innkirtlasérfræðingur, krabbameinssérfræðingur, lungnasérfræðingur, meltingarsérfræðingar, skurðlæknar, smitsjúkdómalæknir, þvagfærasérfræðingar og öldrunarlæknar.
Aðrir faghópar geta eftir atvikum nýtt aðstöðu göngudeildarinnar.
Tekið er gjald fyrir komu á deildina samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands.
![]() |
![]() |
Uppfært: mán 21.nóv 2022