: Kristnesspítali - Endurhæfing og öldrunarlækningar | Sjúkrahúsið á Akureyri  

Kristnesspítali - Endurhæfing og öldrunarlækningar

Forstöðulæknir endurhæfinga og öldrunarlækningar er Arna Rún Óskarsdóttir.Forstöðuhjúkrunarfræðingur er Kristín Margrét Gylfadóttir. Kristnesspítali er

Kristnesspítali - Endurhæfing og öldrunarlækningar

Forstöðulæknir endurhæfinga og öldrunarlækningar er Arna Rún Óskarsdóttir.
Forstöðuhjúkrunarfræðingur er Kristín Margrét Gylfadóttir.

Kristnesspítali er staðsettur 10 km sunnan Akureyrar, í Eyjafjarðarsveit.
Sími Kristnesspítala er 4630365

Á Kristnesspítala fara fram endurhæfinga og öldrunarlækningar Sjúkrahússins á Akureyri. Þar er einnig útibú frá Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands. Kristnesspítali var tekinn í notkun 1927 og þá sem berklahæli.

Grunnur starfsins er þverfagleg teymisvinna meðferðaraðila í samvinnu við sjúklinga og fjölskyldur þeirra. Í teymunum starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, félagsráðgjafi, sjúkraliðar og aðstoðarfólk. Einnig koma inn í teymið talmeinafræðingur og sálfræðingur þegar við á. Samvinna við þjónustuaðila utan stofnunarinnar er mikilvægur þáttur í starfinu. Má þar nefna heilsugæslu og þá sérstaklega heimahjúkrun, ýmis úrræði á vegum Akureyrarbæjar auk Virk starfsendurhæfingarsjóðs.

4. Hæð:
 
  • Starfsemi 5 daga vikunnar, frá mánudegi til föstudags – lokað um helgar
  • Sími 4630360
5. Hæð
 
  • Starsfemi 7 daga vikunnar.
  • Sími 4630375
Þjálfunardeildir
 
  • Starfa virka daga kl. 08:00-16:00

Unnið er í samræmi við skilgreiningu Alþjóða Heilbrigðistofnunarinnar um endurhæfingu: Að draga úr afleiðingum sjúkdóma, slysa og meðfæddra galla með því að auka færni sjúklinga til daglegra athafna og starfa. Á þann hátt er komið í veg fyrir örorku eins og frekast er unnt.

Endurhæfinga og öldrunarlækningar byggja á markvissri samvinnu sjúklings, fjölskyldu og meðferðaraðila svo árangur náist. Megináhersla er lögð á þjálfun og fræðslu. Mikilvægt er að hver og einn sé áhugasamur og taki ábyrgð á sínum hluta meðferðarinnar.  

Innlagnarteymi sér um að meta meðferðarþörf og forgangsraða á biðlista eftir að beiðni um meðferð hefur borist frá heimilislækni eða öðrum sérfræðing, en umsjón biðlista er í höndum heilbrigðisgagnafræðings. Hringt er í sjúkling þegar dagsetning innlagnar liggur fyrir og oft er boðað til forviðtals á göngudeild áður en kemur að innlögn.

UNDIRBÚNINGUR INNLAGNAR

Það sem æskilegt  er að hafa með sér:
 
  • Þægileg föt sem ekki þrengja að hreyfingum líkamans t.d. íþróttagalla
  • Góða skó, lokaða eða með hælbandi
  • Útiföt og skó til gönguferða
  • Sundföt fyrir þá sem geta nýtt sér sundlaug
  • Viðeigandi gönguhjálpartæki og minni hjálpartæki, til dæmis sokkaífærur og griptöng
  • Lyf/lyfjarúllu ef þú ert með hana

Þess ber að geta að ekki er tekin ábyrgð á verðmætum. Sjúklingar geta fengið að geyma verðmæti í læstum skáp hjá starfsfólki. 

MEÐAN DVALIÐ ER Á KRISTNESSPÍTALA

Tekið er á móti nýjum sjúklingum á milli kl. 09:00 og 11:00  á innlagnardegi. Þeir gera vart við sig á vaktherbergi á 4. hæð (5 daga deild) eða 5 hæð (7 daga deild).
Hjúkrunarfræðingur, sjúkraliði og læknir annast innritunarferlið sem meðal annars felur í sér mat á heilsufari, skráningu á ýmsum upplýsingum frá sjúklingi og kynningu á starfsemi deildarinnar, húsakosti og húsreglum.

Dagsjúklingar eru þeir sem aðeins dvelja á deildinni yfir daginn. Þeir eru með aðstöðu til hvíldar og skáp á deild. Dagsjúklingar eiga að láta vita eins fljótt og auðið er í síma 463 0360 ef um veikindi eða aðra fjarveru er að ræða.
Þeir einstaklingar sem ekki hafa búsetu á svæðinu, hafa ekki þörf fyrir sólahringsumönnun og dvelja á 5 daga deild hafa möguleika á að panta sjúkrahótel eða íbúð ef þörf er á. Starfsfólk deildarinnar aðstoðar gjarnan við að leggja inn pöntun en mikilvægt er að leggja inn pöntun með nokkurra daga fyrirvara.

Helgarleyfi. Gert er ráð fyrir að þeir sem það geta, fari í helgarleyfi frá föstudegi eftir þjálfun til mánudagsmorguns. Komi upp aðstæður í helgarleyfi sem kalla á samskipti við lækni eða aðra heilbrigðisstarfsmenn er viðkomandi beðinn að hafa samband í síma 463 0375. Komi upp neyðartilfelli er haft samband við 112.

Lyf. Þeir sem eru inniliggjandi fá lyf á deild eða nota sín eigin. Það er metið í samráði við lækni. Ef um er að ræða lyf sem viðkomandi hefur á sérstakri undanþágu þá þarf hann að koma með það lyf með sér. Lögð er áhersla á að sjúklingur taki ekki önnur lyf en þau sem læknir Kristness segir til um. Dagsjúklingar nota sín lyf.               

Þvottur á fatnaði. Sjúklingar eða aðstandendur sjá um þvott á fatnaði. Hægt er að þvo fatnað í þvottavél á deild í samráði við starfsfólk, þar er einnig þurrkari.

Afþreying. Í dagstofum eru útvarp og sjónvörp. Útvarp er á öllum stofum og sjónarp á flestum stofum. Fríblöð koma virka daga og liggja frammi í dagstofu. 
Þeir sem eru áskrifendur að dagblaði/dagblöðum geta fengið þau send á deildina og nægir að óska eftir því við dreifingu viðkomandi blaðs. Á deildinni er bókasafn. Sjúklingar hafa frjálsan aðgang að safninu meðan á dvöl stendur. Tölvutenging er ekki á öllum herbergjum en þráðlaust net er í dagstofu.                                

Útskrift er að öllu jöfnu ákveðin með viku fyrirvara. Hún er ákveðin af teyminu í samráði við sjúkling. Áður en að útskrift kemur er búið að leggja drög að hvernig framhaldi skuli háttað og hafa samband við viðeigandi þjónustuaðila. Læknir útbýr læknabréf sem sent er þeim lækni er bað um innlögnina og til heimilislæknis.

Heimsóknartími
Aðstandendur eru velkomnir milli kl. 16:00 - 18:00 og á öðrum tímum í samráði við starfsfólk.

Vinsamlegast sprittið hendur áður en farið er inn á deildina. Ekki koma inn á deildina ef þið hafið haft flensulík einkenni, uppköst og/eða niðurgang síðastliðna daga. 

Sjúkrahúsið á Akureyri

Eyrarlandsvegi
IS 600 Akureyri

Sími +354 4630100 / Fax +354 4624621

Kt. 580269-2229

sak@sak.is 

Skiptiborð

s.

463 0100

Vaktlæknir

s.

1700

Neyðarlínan

s.

112