Vegna fjölgunar smita á okkar upptökusvæði munum við herða reglur um heimsóknir og viðveru aðstandanda á deildinni. Reglur verða endurskoðaðar reglulega á meðan þörf krefur.
Öll viðvera aðstandanda er háð því að hann hafi engin einkenni sýkingar síðustu 10 daga. Starfsfólk mun styðjast við skimunarspurningar og aðstandandi skal viðhafa almenna smitgát, þ.a. þvo sér um hendur og spritta við komu á deildina, nota skal andlitsgrímu og virða 2 metra regluna gagnvart starfsfólki.
Þessar leiðbeiningar eiga við konur sem eru smitaðar af COVID-19 og þær sem eru með mögulegt smit.
- Fæðingar
- Einn aðstandandi má vera með konu í fæðingu.
- Keisaraskurðir
- Aðstandanda er velkomið að fylgja konu í keisaraskurð, er aðgerðin er gerð í deyfingu, og dvelja með móður og barni í sængurlegu. Greiðsla fyrir dvölina er eins og áður var.
- Ómskoðanir og áhættumæðravernd
- Einn aðstandandi má koma með konu í 12. og 20. vikna ómskoðun.
- Konan kemur ein í áhættumæðravernd og þar með talið vaxtarsónar.
- Ef móðir er smituð af COVID-19, má aðstandandi vera viðstaddur í hlífðarfatnaði?
- Erfitt er að koma því við að fæðandi kona sem smituð er af COVID-19 hafi hjá sér aðstandanda. Við munum reyna að bjóða aðstandanda að koma þegar fæðing er að nálgast og hann geti þá verið viðstaddur fram yfir fæðinguna.
- Má maki vera með í fæðingu ef hann er í sóttkví en einkennalaus?
- Ef maki er í sóttkví en konan ekki þá getur makinn ekki verið viðstaddur fæðingu. Ef bæði eru í sóttkví getur maki verið viðstaddur ef hann er einkennalaus
- Er mögulegt að aðstandanda verði bannað að vera viðstaddur fæðingu?
- Ef aðstandandi er sýktur af COVID-19 veirunni eða grunur um smit er ekki hægt að bjóða honum upp á að koma inn á spítalann til að vera viðstaddur fæðingu, hvort sem konan er smituð eða ekki. Allir aðstandendur sem hafa einhver einkenni um öndunarfærasýkingu, hversu smávægileg sem þau eru, eiga alls ekki að vera viðstaddir fæðinguna.
- Verður fæðingin öðruvísi ef kona er smituð af COVID-19?
- Smit ætti ekki að hafa áhrif á fæðingarmáta nema ef kona er mjög veik og með mikla öndunarerfiðleika.
- Mælt er með fæðingu á sjúkrahúsi.
- Mælt er með síritun fósturhjartsláttar.
- Mælt er með mænurótardeyfingu, ef þörf er á deyfingu. Það er vegna þess að svæfing gæti verið varasöm hjá smituðum konum og því er betra að búið sé að tryggja mögulega verkjastillingu og deyfingu ef grípa þarf inn í fæðingu með keisara.
- Starfsfólk er klætt í meiri hlífðarbúnað en venjulega.
- Má aðstandandi vera með konu í sængurlegu eftir fæðingu?
- Aðstandanda er velkomið að dvelja með móður og barni eftir fæðingu. Gert er ráð fyrir að aðstandandi haldi sig sem mest inni á stofu hjá konunni og fari ekki í sameiginleg rými. Greiðsla fyrir dvölina er eins og áður var.
Brjóstagjöf
- Ef kona smitast af COVID-19 má hún gefa brjóst?
- COVID-19 hefur enn ekki greinst í brjóstamjólk en mögulega getur barn smitast af móður við þá nánd sem brjóstagjöf felur í sér.
- Nokkrar leiðir eru til að draga úr smiti frá móður til barns:
- Góður handþvottur og handsprittun fyrir snertingu barns
- Vera með grímu við brjóstagjöf.
- Þvo geirvörtur með volgu sápuvatni fyrir brjóstagjöf
- Nota mjaltavél og fá aðstoð frá frískum einstaklingi til að gefa barninu móðurmjólk.
- Ef mjaltavél er notuð þarf að huga vel að handþvotti og hreinlæti við notkun vélarinnar.
- Það er líklegast að jákvæð áhrif brjóstagjafar á heilsufar barnsins vegi þyngra en möguleg áhætta
- Getur mjólkin minnkað eða farið ef ég smitast af COVID-19?
- Það hafa ekki komið fram upplýsingar um að COVID-19 veiran hafi áhrif á mjólkurframleiðslu. Líklegast er að eftirspurnin stjórni framboðinu eins og venjulega.
- Hefur COVID-19 áhrif á samveru móður og barns á Barnadeild SAk?
- Ef barn smitaðrar móður fer á Barnadeild þá getur móðirin því miður ekki farið til barnsins þangað.
- Þarf kona sem er smituð að fara í einangrun frá nýfæddu barni?
- Það eru svolítið misvísandi upplýsingar um þetta. Aðskilnaður móður og barns er róttæk aðgerð sem hefur neikvæð áhrifa á fæðugjöf og tengslamyndun. Slík ráðlegging þarf að byggja á góðri þekkingu. Á SAk hefur verið ákveðið að fylgja breskum leiðbeiningum og ráðleggja ekki aðskilnað móður og barns nema barn þurfi innlögn á Barnadeild.
Heimaþjónusta ljósmæðra
- Skerðist heimaþjónusta ljósmæðra eftir fæðingu vegna COVID-19 faraldursins?
- Það er ekki gert ráð fyrir breytingu á heimaþjónustu ljósmæðra en ef margar ljósmæður veikjast eða fara í sóttkví er mögulegt að þjónustan skerðist.
- Geta konur sem smitaðar eru af COVID-19 fengið heimaþjónustu eftir fæðingu?
- Flestir sem sýkjast af COVID-19 þurfa ekki að dvelja á sjúkrahúsi og því er líklegt að það gildi einnig um konu og barn eftir fæðingu. Það er því líklegt að kona og barn geti útskrifast heim af sjúkrahúsi eftir 36-48 tíma frá fæðingu og fengið heimaþjónustu. Ljósmóðir mun vera í hlífðarbúnaði.
Nýburinn
- 5. Daga barnalæknisskoðanir
- Börn koma í 5d barnalæknisskoðanir á fæðingadeildina. Einungis annað foreldrið má koma með barninu í þessa skoðun. Mikilvægt er að foreldrar komi ekki ef þeir hafa einhver einkenni. Nánari upplýsingar gefur ljósmóðir í heimaþjónustu.
- Er í lagi að fá heimsóknir með nýfætt barn?
- Almennt er ráðlagt að takmarka heimsóknir til nýfæddra barna. Við mælum með því að fólk fái ekki heimsóknir á meðan heimaþjónusta stendur yfir, en það geta verið allt að 10 dagar.
- Á sjúkrahúsum eru heimsóknir almennt ekki leyfðar á meðan faraldurinn gengur yfir.
Til aðstandenda í COVID-19 faraldri
- Ekki koma á spítalann ef þú ert með COVID-19 smit eða hefur einhver merki sýkingar svo sem kvef, hita, hósta eða beinverki eða ef þú ert í sóttkví.
- Sprittaðu hendur við komu á deild.
- Fylgdu leiðbeiningum starfsfólks sem gefur upplýsingar um hvernig á að fylgja sóttvarnarreglum.
- Virðum 2ja metra fjarlægðarviðmið.
- Gott er að víkja frá heilbrigðisstarfsfólki þegar verið er að sinna konu eða barni.
- Ekki nota sameiginleg rými s.s. kaffistofu eða salerni nema brýna nauðsyn beri til.
Uppfært: mán 17.jan 2022