Sjúkrahúsið á Akureyri er með gæðavottun á starfsemi sinni sem það hlaut upphaflega í desember 2015 auk þess að vera með vottun samkvæmt alþjóðlega gæðastaðlinum ISO 9001:2015. Árlega fer fram gæðaúttekt á vegum DNV-GL sem er nauðsynleg til að viðhalda ofangreindum vottunum og var síðasta úttekt 2.–4. nóvember sl. Margt jákvætt kom fram í úttektinni s.s. vel viðhaldið húsnæði, áberandi gæða-, öryggis- og umbótahugsun starfsmanna og ljóst að mikil vinna hefur verið lögð í umbætur, breytingar á verklagi o.fl. En ekki verður komist hjá frávikum í úttektum og líta má á að þau séu nauðsynlegur hluti í gæða- og umbótavinnu.
Niðurstaða úttektar að þessu sinni var 12 frávik og 7 ábendingar um tækifæri til umbóta. Öll frávikin eru gagnleg þar sem þau gefa okkur tækifæri til þess að gera betur með það að leiðarljósi að stuðla að auknu öryggi sjúklinga og starfsmanna. Nú vinna lykilaðilar að úrbótaáætlun og hefjast handa við að bæta úr ofangreindum frávikum. Í janúar mun síðan liggja fyrir hvort úrbótaáætlunin verði samþykkt og þá hvort SAk fái endurnýjaða vottun til næstu þriggja ára.