Eitt af verkefnum vorsins er að gera grein fyrir starfsemi síðasta árs á ársfundi. Ársfundur sjúkrahússins verður haldinn fimmtudaginn 27. maí og verður í fjarfundi. Faraldurinn og viðbrögðin við honum setti mikið mark á starfsemi síðasta árs og skapaði miklar áskoranir fyrir alla. Áskoranir sem allir tókust á við af mikilli yfirvegun og fundu lausnir sem virkuðu. Margar þær lausnir munu nýtast okkur áfram til að gera gott starf betra og kom það bersýnilega í ljós á málþingi sem haldið var sl. fimmtudag með það að markmiði hvað hægt væri að læra af Covid (f)árinu. Það er því vel við hæfi að hafa yfirskrift ársfundarins „Í sóknarhug“. Á ársfundinum verður að vanda lögð fram ársskýrsla sem lýsir starfsemi einstakra stjórnunareininga og nefnda á síðasta ári. Ársskýrslan endurspeglar það mikla og góða starf sem hér er unnið.
Í síðustu viku tók sjúkrahúsið ásamt fleirum þátt í stofnun heilbrigðis- og velferðaklasa. Verkefni klasans er að leiða saman hagaðila í opinbera geiranum, einkafyrirtækjum og vísindasamfélaginu til þess að nýta og þróa lausnir til nýsköpunar í veitingu heilbrigðis- og velferðarþjónustu á komandi árum.
Um nokkurt skeið hefur verið unnið að innleiðingu á Qlik Sense hugbúnaðinum sem vinnur upplýsingar úr gagnagrunnum okkar og býður upp á rafrænar, gagnvirkar skýrslur og mælaborð sem veita góða heildaryfirsýn yfir upplýsingar á aðgengilegra formi en áður. Nokkur mælaborð starfseininga eru tilbúin og hefur t.d. bráðamóttakan nýtt þessa lausn til að greina og stýra starfseminni. Einnig er tilbúið mælaborð fyrir legudeildir og mælaborð göngudeilda er á lokametrunum. Unnið er að uppsetningu á fleiri mælaborðum sem líta dagsins ljós á næstunni og verða þau kynnt þegar þar að kemur.
Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI
Bestu kveðjur og góða helgi
Bjarni Jónasson