Eins og vænta mátti hefur Covid-19 látið á sér kræla á ný og herða hefur þurft sóttvarnaraðgerðir í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis og stjórnvalda. Viðbragðsstjórnin hefur sent frá sér tilkynningar um hertar aðgerðir hér innanhúss og bið ég alla að taka fullt tillit til þess sem þar kemur fram – almenn smitgát, 2 metra reglan og skurðstofugrímur þar sem við á. Þannig tryggjum við öryggi sjúklinga og starfsmanna.
Í vor samþykkti Alþingi lög og þingsályktanir sem hafa áhrif á umgjörð heilbrigðiþjónustunnar. Þar eru þættir sem huga þarf að hér á næstunni.
Lögum um heilbrigðisþjónustu var breytt til samræmis við heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Helstu breytingarnar felast í því að skilgreiningum á heilbrigðisþjónustu er skipt í þrjú stig, þ.e. fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Gerðar eru breytingar á ákvæðum laganna um framkvæmdastjórnir og jafnframt kveðið á um að á öllum heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur skuli starfa sameiginleg fagráð fagstétta heilbrigðisstarfsfólks á viðkomandi stofnun. Fyrri ákvæði laga um starfsemi læknaráða og hjúkrunarráða eru felld brott. Þá er skýrar kveðið á um hlutverk heilbrigðisstofnana. Ráðherra mun á næstunni setja reglugerð sem kveður nánar á um hlutverk, starfsemi og þjónustu heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa. Þar verður einning kveðið á um skipan og verklag fagráða.
Ný heildarlöggjöf um lyfjamál tekur gildi 1. janúar 2021. Við það fær m.a. lyfjanefnd Landspítala aukið hlutverk og aukna ábyrgð þar sem henni verður falið að bera faglega og fjárhagslega ábyrgð á ákvörðunum um notkun lyfja á opinberum heilbrigðisstofnunum og notkun nýrra og kostnaðarsamra lyfja í heilbrigðisþjónustunni.
Þá var samþykkt þingsályktunartillaga um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Þar er fjallað um hvernig best megi nálgast það viðfangsefni að forgangsraða fjármunum í heilbrigðisþjónustunni og hvaða gildi eigi að liggja til grundvallar. Þau siðferðilegu gildi sem höfð skulu að leiðarljósi eru í fyrsta lagi mannhelgi, í öðru lagi þörf og samstaða og í þriðja lagi hagkvæmni og skilvirkni.
Höldum áfram að njóta sumarsins hvort heldur við erum við störf eða úti í góða veðrinu.
Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI
Bestu kveðjur og góða helgi
Bjarni Jónasson