Covid-19, fluglæknar og heilbrigðisþing

Covid-19, fluglæknar og heilbrigðisþing Ágætu samstarfsmenn! Nú hefur félagi Covid verið að eflast í nærumhverfi okkar. Við hefðum frekar kosið að sjá

Covid-19, fluglæknar og heilbrigðisþing

Ágætu samstarfsmenn!

Nú hefur félagi Covid verið að eflast í nærumhverfi okkar. Við hefðum frekar kosið að sjá hann þróast á annan veg. Smit hafa verið að koma upp hjá starfsmönnum og nemum. Verið er að undirbúa sjúkrahúsið fyrir að fara á hættustig. Heimsóknir eru nú almennt bannaðar og tímabundnar breytingar verða gerðar á valkvæðri þjónustu. Samkvæmt ákvörðun ráðherra hefur valkvæðum skurðaðgerðum og öðrum ífarandi aðgerðum verið frestað frá og með 29. október til 15. nóvember nk. Biðlistar eftir aðgerðum munu óhjákvæmilega lengjast. Þá verður göngudeildarþjónustu sinnt með fjarþjónustu eins og unnt er eða frestað tímabundið. Engu að síður verður allri bráðaþjónustu sinnt áfram sem og annarri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Viðbragðsstjórn sjúkrahússins fylgist áfram náið með þróuninni.

Eins og í fyrstu bylgju faraldursins er samvinna lykilorðið í þeim aðstæðum sem við blasa í dag. Samvinna þvert á starfseiningar hér innanhúss, samvinna heilbrigðisstétta og heilbrigðisstofnana, ráðuneyta, almannavarna og annarra stofnana samfélagsins sem vinna að velferð íbúanna skiptir sköpum.

Fylgjum þeim leiðbeiningum og reglum yfirvalda og viðbragsstjórnar og hugum vel að persónulegum sóttvörnum. Munum að góður undirbúningur og jákvæðni skilar okkur árangri og tryggir öryggi sjúklinga og starfsmanna. 

            Þegar kemur að því að taka saman söguna þá segja myndir meira en mörg orð. Það væri fengur í því að fá myndir af starfsmönnum við störf í þeim aðstæðum sem nú eru og fá að birta þær á okkar vefsvæðum. Að sjálfsögðu með samþykki þeirra sem á myndum eru.

           Þá að öðru. Sjúkrahúsið hefur borið ábyrgð á læknisfræðilegri þjónustu við sjúkraflug frá árinu 2002. Það var því löngu tímabært að auðkenna fluglæknana með skýrum hætti. Yfirlæknir sjúkraflugsins hefur látið hanna logo fluglækna sem hér sést. Það er lýsandi fyrir þá mikilvægu þjónustu og sver sig í ætt við logo sjúkrahússins og hollvina SAk.

Þann 6. nóvember 2020 er boðað til heilbrigðisþings um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustunni með áherslu á nýsköpun. Stefnt er að því að afrakst­ur þings­ins verði grunn­ur að þings­álykt­un­ar­til­lögu til Alþing­is um þessi mik­il­vægu mál. Þingið er rafrænt og verður streymt frá síðunni  www.heilbrigdisthing.is. Hvet ykkur til að fylgjast með. 

Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI 

Bestu kveðjur og góða helgi 

Bjarni Jónasson


Sjúkrahúsið á Akureyri

Eyrarlandsvegi
IS 600 Akureyri

Sími +354 4630100 / Fax +354 4624621

Kt. 580269-2229

sak@sak.is 

Skiptiborð

s.

463 0100

Vaktlæknir

s.

1700

Neyðarlínan

s.

112