Allt lítur út fyrir að COVID-19 faraldurinn sé á undanhaldi. Það hefur komið okkur ánægjulega á óvart hve fá tilfelli hafa komið upp á Norðurlandi. Þegar viðbúnaður sjúkrahússins var undirbúinn var tekið mið af svörtustu spám og að um 10 til 12% tilfella sem þyrftu á sjúkrahúsvist að halda kæmu á Sjúkrahúsið á Akureyri. Sem betur fer hafa svörtustu spár ekki gengið eftir en svipað hlutfall Covid-19 smitaðra sjúklinga hefur komið á sjúkrahúsið og reiknað var með.
Nú þegar við getum farið að horfa til þess að færa okkur í átt að þeirri starfsemi sem var fyrir covid verðum við að vera vel meðvituð um að upp geta komið staðbundin tilfelli sem geta kallað á ákveðin og jafnvel umfangsmikil viðbrögð. Viðbragðsstjórnin mun þá leiða okkur í gegnum þau skref af sömu röggsemi og áður. Mikilvægt er að sá lærdómur sem draga má af starfseminni á covid tímum nýtist okkur í endurbótum og þróun á þjónustu við sjúklinga og í innra starfi sjúkrahússins. Í því sambandi má m.a. nefna skipulag þjónustu, verkferla og verklag, fjarheilbrigðisþjónustu og fjarfundatækni.
Í tengslum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar um tímabundið fjárfestingarátak vegna áhrifa COVID-19 faraldursins hafa verið samþykktar aukafjárveitingar til sjúkrahússins. Til viðhalds og endurbóta fasteigna koma 120 mkr. og til nýbygginga koma 80 mkr. í hönnun á legurými. Við fögnum þessu og nú þegar er hafinn undirbúningur þannig að þessir fjármunir nýtist sem best.
Hvað sem dagsins önn líður þá hafa árstíðirnar sinn gang. Það styttist í sumarið samkvæmt almanakinu og sólin er farin að guða á glugga og innan skamms fer grasið að anga. Ég færi ykkur bestu þakkir fyrir frábær störf á krefjandi tímum.
Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI
Bestu kveðjur og góða helgi.
Bjarni Jónasson