COVID-19 staðan í dag

COVID-19 staðan í dag Ágætu samstarfsmenn! Samvinna er lykilorðið í þeim aðstæðum sem við blasa í dag. Samvinna þvert á starfseiningar hér innanhúss. Enn

COVID-19 staðan í dag

Bjarni Jónasson, forstjóri
Bjarni Jónasson, forstjóri

Ágætu samstarfsmenn!

Samvinna er lykilorðið í þeim aðstæðum sem við blasa í dag. Samvinna þvert á starfseiningar hér innanhúss. Enn þéttari samvinna allra heilbrigðisstétta og heilbrigðisstofnana. Samvinna heilbrigðiskerfisins, ráðuneyta, almannavarna og annarra stofnana samfélagsins sem vinna að velferð íbúanna. Það er frábært að finna og sjá hvað samvinnan fær miklu áorkað. Viðbúnaður sjúkrahússins hefur magnast stig af stigi undanfarna daga.

Útbúin hefur verið sérstök einangrunardeild fyrir einstaklinga sem smitaðir eru af COVID-19. Valaðgerðum á skurðstofum hefur verið frestað og er starfsemi þar nú miðuð við aðgerðir sem ekki geta beðið. Það hefur óhjákvæmilega áhrif til lengingar á biðlistum og biðtíma þann tíma sem þetta ástand varir. Dag- og göngudeildir verða einungis opnar fyrir aðgerðir og meðferðir sem ekki þola bið. Sama gildir um önnur erindi sem ekki er hægt er leysa með símtali og þola ekki bið. Þá hefur starfsemi Kristnesspítala verið skert. Hingað til hefur gengið vel að veita þjónustu og þrátt fyrir skerðingu og breytingar á starfseminni er markmiðið að veita áfram góða þjónustu til þeirra sem til okkar leita.

Mesta áskorunin framundan er að tryggja mönnun. Það er mikilvægt að við hjálpumst að við að huga að andlegri og líkamlegri líðan okkar sjálfra og styðja hvert annað. Allar starfseiningar hafa endurskipulagt vinnu sína til að tryggja aðskilnað og skipað starfsmönnum í aðskilda hópa þar sem því verður við komið. Það er meðal annars gert til að tryggja það að við getum haldið úti þjónustu ef til þess kæmi að hluti hópsins þyrfti í sóttkví eða einangrun. Einnig geta aðrir þættir haft áhrif s.s. röskun á skólastarfi þrátt fyrir forgang starfsmanna að skólastarfsemi.

Það mun reyna enn frekar á samvinnu allra á næstu vikum. Með góðum undirbúningi og jákvæðni komumst við í gegnum þetta saman. Ég vil koma á framfæri kærum baráttukveðjum frá heilbrigðisráðherra til ykkar allra.

Kærar þakkir fyrir frábær störf við allan COVID-19 undirbúning samhliða því að halda úti annarri nauðsynlegri starfsemi. Samstillt átak skilar okkur í mark. 

Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI 

Bestu kveðjur og góða helgi.

Bjarni Jónasson


Sjúkrahúsið á Akureyri

Eyrarlandsvegi
IS 600 Akureyri

Sími +354 4630100 / Fax +354 4624621

Kt. 580269-2229

sak@sak.is 

Skiptiborð

s.

463 0100

Vaktlæknir

s.

1700

Neyðarlínan

s.

112