Covid faraldurinn virðist vera í rénun hér Norðanlands. Enn eru þó smit í samfélaginu og þörf á fullri aðgát og smitvörnum. Þegar síðasti Covid-19 smitaði sjúklingurinn útskrifaðist um síðustu helgi fór sjúkrahúsið á óvissustig. Í þessari bylgju, sem vonandi verður sú síðasta, hafa 35 komið á Covid göngudeildina og 7 þurft á innlögn að halda. Þá voru 62 starfsmenn sendir í sóttkví og 4 í einangrun.
Nú þegar framleiðsla og leyfi fyrir bóluefni við Covid-19 eru komin í sjónmál er farið að undirbúa hvernig að bólusetningu verður staðið. Sjúkrahúsið hefur í samráði við Embætti landlæknis hafið undirbúning að bólusetningu starfsmanna.
Október og nóvember hafa verið mánuðir gæðaúttekta. Áður hefur verið fjallað hér um úttekt DNV – GL á gæðakerfinu okkar. Niðurstöður þeirrar úttektar liggja nú fyrir sem og þau umbótaverkefni sem farið verður í til að bregðast við þeim ábendingum sem fram komu. Skýrslan er aðgengileg á vef gæðaráðs. Þá var árleg úttekt á upplýsingatæknikerfum samkvæmt ISO/IEC 27001:2013 staðlinum og einnig var úttekt á jafnlaunavottuninni samkvæmt ÍST 85:2012 staðlinum. Báðar þær úttektir komu vel út og þær ábendingar sem þar komu fram nýtast vel til áframhaldandi þróunar á þeim kerfum. Allar þessar vottanir og úttektir hafa það markmið að bæta öryggi sjúklinga og starfsmanna sem og vinnuumhverfi. Niðurstöðurnar bera þess vitni að hér er unnið fagmannlega og af miklum metnaði. Kærar þakkir til ykkar allra.
Höldum áfram að fylgja þeim leiðbeiningum og reglum yfirvalda og viðbragsstjórnar og hugum vel að persónulegum sóttvörnum. Þannig tryggjum við öryggi sjúklinga og starfsmanna.
Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI
Bestu kveðjur og góða helgi
Bjarni Jónasson