Fagráð og starfsemi síðasta árs

Fagráð og starfsemi síðasta árs Fimm manna fagráð SAk var skipað undir lok síðasta árs og var starfsemi þess ýtt úr vör á fundi með framkvæmdastjórn

Fagráð og starfsemi síðasta árs

Bjarni Jónasson, forstjóri
Bjarni Jónasson, forstjóri

Fimm manna fagráð SAk var skipað undir lok síðasta árs og var starfsemi þess ýtt úr vör á fundi með framkvæmdastjórn miðvikudaginn 13. janúar. Grundvöllur fyrir starfsemi fagráðsins byggir á lögum um heilbrigðisþjónustu og reglugerðar nr. 1111/2020.  Þar er kveðið á um að hjúkrunarfræðingar og læknar skuli hafa hvor sinn fulltrúann. Auglýst var eftir þremur fulltrúum úr hópi annarra heilbrigðisstétta. Umsóknir bárust frá fulltrúum úr hópi geislafræðinga, lífeindafræðinga og lyfjafræðinga. Fagráðið er þannig skipað: Elvar Örn Birgisson, geislafræðingur; Guðmundur Otti Einarsson, sérfræðilæknir; Jóhanna María Oddsdóttir, hjúkrunarfræðingur; Jóna Valdís Ólafsdóttir, lyfjafræðingur og Jónína Jóhannsdóttir, lífeindafræðingur. Starfsemi fagráðsins á að endurspegla áherslu á teymisvinnu, þverfaglega nálgun og samfellu í meðferð og þjónustu við sjúklinga. Fagráð og forstjóri munu halda reglulega upplýsinga- og samráðsfundi og mun framkvæmdastjórn sitja þá fundi. Ég hlakka til þessa samráðs.

            Eins og áður hefur komið fram var starfsemi síðasta árs mörkuð af áhrifum Covid-19. Dag- og göngudeildarþjónusta dróst saman. Komur á dagdeildir voru um 10% færri miðað við fyrra ár, þó mjög misjafnt á milli deilda. Legudögum fækkaði um 12%. Mest fækkaði legudögum á Kristnesspítala en legudagar á lyflækningadeild og gjörgæsludeild voru óbreyttir á milli ára. Meðallega á öllum deildum var 5,0 dagar en 3,8 dagar ef einungis er skoðuð meðallega á bráðadeildum. Fæðingar voru 389 sem er fækkun um um 3,5%. Skurðaðgerðum fækkaði um 22% og voru 3.043. Sjúkrahúsið hefur frá árinu 2016 tekið aukinn þátt í átaki stjórnvalda til að stytta biðtíma eftir völdum aðgerðum. Vega gerviliðaaðgerðir þar þyngst en gerðar voru um 130 aðgerðir umfram þær 200 sem gerðar voru árlega fyrir þann tíma. Komum á bráðamóttöku fækkaði um 16,6%. Almennar rannsóknir voru 7,2% færri og myndgreiningum fækkaði um tæp 17% en aðrar rannsóknir voru nokkru færri eða svipaðar milli ára. Farið var í 623 sjúkraflug á móti 766 flugum árið áður sem er fækkun um 19%. Ég vona að unnt verði að halda úti eðlilegri starfsemi á nýbyrjuðu ári. Virkar sóttvarnir og bólusetning gefa tilefni til bjartsýni í þeim efnum.           

Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI 

Bestu kveðjur og góða helgi

Bjarni Jónasson

 


Sjúkrahúsið á Akureyri

Eyrarlandsvegi
IS 600 Akureyri

Sími +354 4630100 / Fax +354 4624621

Kt. 580269-2229

sak@sak.is 

Skiptiborð

s.

463 0100

Vaktlæknir

s.

1700

Neyðarlínan

s.

112