Í byrjun nýs árs

Í byrjun nýs árs Sæl öll og gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir það liðna. Nýliðið ár var að vanda viðburðaríkt. Heilt yfir gekk starfsemin vel og

Í byrjun nýs árs

Bjarni Jónasson, forstjóri
Bjarni Jónasson, forstjóri

Sæl öll og gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir það liðna.

Nýliðið ár var að vanda viðburðaríkt. Heilt yfir gekk starfsemin vel og sjúklingar almennt ánægðir með þjónustuna. Þróun á þeirri starfsemi sem fyrir var hélt áfram og inn komu nýir þjónustuþættir þar má m.a. nefna göngudeild endurhæfingar sem fór af stað á fyrstu mánuðum ársins og undir lok árs varð starfsemi Heimahlynningar hluti af starfsemi almennu göngudeildarinnar. Umfang hefðbundinnar starfsemi var með áþekkum hætti og fyrra ár. Ánægjulegt var að fæðingum fjölgaði og voru 403 eða 15 fleiri en á síðasta ári. Vel gekk að stytta biðtíma eftir aðgerðum í tengslum við biðlistaátak stjórnvalda. Innan þess voru gerðar 250 gerviliðaaðgerðir, 30 augasteinsaðgerðir og 28 kvensjúkdómaaðgerðir. Rekstrarlega var árið krefjandi og vel þarf að halda á spöðunum á nýbyrjuðu ári svo fjárhagsleg markmið náist í samræmi við fjárlög.

Alþingi samþykkti á vormánuðum síðasta árs Heilbrigðisstefnu til 2030 og er það til marks um að rekstri heilbrigðiskerfisins verði á komandi árum stýrt út frá markaðri stefnu á hinum ýmsu sviðum, t.d. lyfjastefnu, geðheilbrigðisstefnu og krabbameinsáætlun. Stefna sjúkrahússins “SAk fyrir samfélagið” fellur vel að þeim áherslum. Við náðum áföngum í þróun á rafrænum kerfum s.s. lyfjaumsýslu, vaktarakerfum á deildum og fræðslukerfi. Við fengum vottun á upplýsingatæknikerfin, endurnýjuðum vottun á Gæðingnum og uppfylltum öll skilyrði fyrir jafnlaunavottun, bíðum bara eftir því að skírteinið komi í hús. Þær kröfur sem þessir staðlar gera til starfseminnar marka einnig áherslur í starfinu til skemmri og lengri tíma. Aðferðir straumlínustjórnunar verða svo nýttar til umbóta þar sem þess er þörf. Með þessu höldum við áfram að gera gott starf betra og bæta öryggi sjúklinga og starfsmanna. Ég færi ykkur öllum bestu þakkir fyrir vel unnin störf.

Ég trúi því að nýhafið ár verði okkur farsælt. Með góðri samvinnu getum við haldið áfram að sækja fram og styrkja þá góðu þjónustu sem sjúklingum stendur hér til boða og samfélaginu til heilla.

Bestu kveðjur og góða helgi

Bjarni Jónasson, forstjóri

 

 


Sjúkrahúsið á Akureyri

Eyrarlandsvegi
IS 600 Akureyri

Sími +354 4630100 / Fax +354 4624621

Kt. 580269-2229

sak@sak.is 

Skiptiborð

s.

463 0100

Vaktlæknir

s.

1700

Neyðarlínan

s.

112