Ágætu samstarfsmenn!
Sæl öll og gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir það liðna. Ný liðið ár var að vanda viðburðaríkt en ekki á þann hátt sem væntingar stóðu til þegar við héldum af stað inn í árið. Engan hefði órað fyrir því að lítil veira myndi nánast loka heiminum á okkar tímum. En það gerðist.
COVID-19 faraldurinn skall á hér í mars. Undirbúningur komu hans hófst undir lok janúar í samráði og samvinnu við heilbrigðisyfirvöld, almannavarnir, ráðuneyti, aðrar heilbrigðisstofnanir og starfsmenn. Sérstök viðbragðsstjórn var skipuð sem leiddi allt viðbragð SAk. Áskorunin var í megin þáttum þríþætt þ.e. að veita nauðsynlega sjúkrahúsþjónustu, að taka á móti þeim COVID-19 sjúklingum sem þurfa á sjúkrahúsvist að halda og að sjá til þess að mönnun og aðföng séu nægjanleg til að sinna þessum verkefnum. Þetta kallaði m.a. á öflugar sýkingavarnir fyrir sjúklinga sem og starfsfólk.
Sett var upp sérstök legudeild og einnig var opnuð sérstök göngudeild fyrir COVID-19 smitaða. Fyrsta smitið á Norðurlandi greindist 15. mars og fyrsta innlögn smitaðs einstaklings var 26. mars. Sú bylgja sem nefnd hefur verið fyrsta bylgjan rann sitt skeið á enda í sumarbyrjun. Fyrri hluti sumars var nokkuð eðlilegur miðað við fyrri ár en síðari hluta sumars fór önnur bylgjan af stað. Mun mildari en sú fyrsta. Þriðja bylgjan fór svo á flug um miðjan september og varð öllu meiri en sú fyrsta. Hér að neðan er samantekt um COVID-19 tölfræðina hjá okkur.
Covid-19 |
Bylgja 1 |
Bylgja 2 |
Bylgja 3 |
Alls |
Inniliggjandi í sóttkví |
18 |
36 |
19 |
73 |
Covid göngudeild |
17 |
0 |
35 |
52 |
Innlagðir covid smitaðir |
9 |
0 |
7 |
16 |
- þar af á gjörgæslu |
3 |
0 |
1 |
4 |
- þar af í öndunarvél |
2 |
0 |
0 |
2 |
Andlát |
0 |
0 |
0 |
0 |
Starfsmenn í sóttkví |
48 |
4 |
62 |
114 |
Starfsmenn í einangrun |
5 |
0 |
4 |
9 |
Áhrifin á aðra starfsemi voru mikil þegar toppar komu í faraldurinn m.a. þar sem valaðgerðum á skurðstofum var frestað tímabundið og starfsemi dag- og göngudeilda raskaðist. Það hefur óhjákvæmilega haft áhrif til lengingar á biðlistum og biðtíma. Almennt gekk þó vel að veita nauðsynlega bráðaþjónustu. Því er ánægjulegt að sjá að samkvæmt könnun bera 90% íbúanna mikið traust til Sjúkrahússins á Akureyri og að 95% þeirra sem höfðu nýtt sér þjónustuna sl. 12 mánuði voru ánægðir með hana.
Það var mikilvægur áfangi þegar bólusetning framlínustarfsmanna hófst 30. desember sl. og vonandi markar það upphafið að endalokunum í baráttunni við þessa skæðu veiru. Lærdómurinn sem við drögum af því sem á gekk á liðnu ári á eftir að verða okkur veganesti til nýrrar nálgunar í veitingu þjónustu og skiplagningu verkefna og starfsemi á nánast öllum sviðum.
Stefnan SAk fyrir samfélagið er okkar leiðarljós. Í henni eru markaðar leiðir til þess að styrkja og bæta þjónustu og vinnuumhverfi með umbótum á vinnulagi, bættum tækjakosti og aðstöðu sjúklingum til hagsbóta. Faraldurinn hægði á ýmsum lykilaðgerðum stefnunnar en það stendur til bóta. Á þessu ári verður stefnan tekin til endurskoðunar og ný stefna til ársins 2026 mótuð m.a. með hliðsjón af gildandi Heilbrigðisstefnu og aðgerðaráætlunum hennar. Vænti ég þess að þið takið vel í að það verði kallað eftir þátttöku ykkar í þá vinnu.
Ég trúi því að nýhafið ár verði okkur farsælt og er þess fullviss að við náum áfram að sækja fram og starfa saman í góðri samvinnu með öryggi sjúklinga að leiðarljósi. Ég færi ykkur öllum bestu þakkir fyrir vel unnin störf á liðnu ári.
Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI
Bestu kveðjur og góða helgi
Bjarni Jónasson