Ágætu samstarfsmenn!
Þegar mikið liggur við og reynir á þá endurspeglast þau gildi sem liggja til grundavallar því starfi sem hér er unnið. „Kóvið“ og allt sem því hefur fylgt endurspeglar gildin okkar vel. Við leggjum áherslu á öryggi sjúklinga og starfsmanna með skýrum leiðbeiningum, viðeigandi hlífðarbúnaði, sóttvörnum, umhyggju og virðingu. Með samvinnu og samstiltu átaki settum við upp sérstaka legudeild, göngudeild og þverfaglegt viðbragðsteymi og lítum á þær áskoranir sem upp koma sem tækifæri til að sækja fram með nýjar leiðir til að veita þjónustu.
Það er því ánægjulegt að sjá niðurstöður úr könnun Gallup þar sem íbúar á Norður- og Austurlandi eru spurðir um traust til Sjúkrahússins á Akureyri og viðhorf til þjónustu þess. Skemmst er frá því að segja að 90% íbúanna bera mikið traust til Sjúkrahússins á Akureyri og 95% þeirra sem höfðu nýtt sér þjónustuna sl. 12 mánuði voru ánægðir með hana. Er þetta ívið betri niðurstaða en fyrir ári síðan þegar sama könnun var lögð fyrir. Þegar horft er til trausts stofnana sem Gallup mælir í þjóðarpúlsi sínum skorar Sjúkrahúsið á Akureyri hæst. Þetta er góður vitnisburður um það góða starf sem hér er unnið.
Samfélagið metur það sem vel er gert og það endurspeglast í mikilli velvild og hlýhug til okkar starfsemi. Það yljar okkur um hjartarætur. Jólin, jólin alls staðar með jólagleði og gjafirnar ... segir í einu jólakvæðanna. Það má með sanni segja að Hollvinir sjúkrahússins og aðrir velunnarar hafi komið með gjafirnar í ár; ferðaöndunarvél, hjartalínuritstæki, sjúkrarúm, ómtæki, lasertæki fyrir æðahnúta og lífsmarkamæla svo fátt eitt sé nefnt. Búnaður sem gerir okkur enn betur kleift að sinna þeim sem þurfa á þjónustu sjúkrahússins að halda. Öllum þeim sem komið hafa að þessum góðu verkum færi ég kærar þakkir.
Við höfum tekist á við óvæntar og krefjandi aðstæður og sinnt hlutverki okkar af faglegum metnaði. Við getum litið stolt til baka og verið ánægð með það starf sem unnið hefur verið á árinu í góðri samvinnu með öryggi sjúklinga að leiðarljósi. Hafið öll bestu þakkir fyrir vel unnin störf.
Jólin í ár verða eflaust „öðruvísi jól“ fyrir marga en engu að síður kærkomin. Það er ósk mín að jólin og áramótin verði ykkur og fjölskyldum ykkar ánægjuleg. Þeim sem verða við störf um hátíðarnar sendi ég sérstakar hátíðarkveðjur.
Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Bjarni Jónasson