Senn líður að jólum og bólusetningu

Senn líður að jólum og bólusetningu Ágætu samstarfsmenn! Aðventubragurinn í ár er öðruvísi en við eigum að venjast og kemur kannski ekki á óvart í ljósi

Senn líður að jólum og bólusetningu

Bjarni Jónasson, forstjóri
Bjarni Jónasson, forstjóri

Ágætu samstarfsmenn!

Aðventubragurinn í ár er öðruvísi en við eigum að venjast og kemur kannski ekki á óvart í ljósi þess sem á undan er gengið. En við reynum að halda í þær hefðir sem hægt er þó með öðrum hætti sé. Ég vona að jólahangiketið hafi runnið ljúflega niður þó ekki væri það í klassískum litlujóla stíl á deildum. Jólagjöf sjúkrahússins til starfsmanna verður með sama sniði og á síðasta ári sem þakklætisvottur fyrir gott og gefandi starf á árinu sem er að líða. Það er gjafakort sem gildir í allar verslanir á Glerártorgi. Covid-19 faraldurinn hefur reynt verulega á samstöðu, útsjónarsemi og þrautsegju. Því fylgir nú með lítill táknrænn „Covid moli“ sem ég vona að nýtist vel. Afhending jólagjafa verður í næstu viku.

            Gæðavísarnir okkar hafa verið uppfærðir fyrir tímabilið janúar-september. Varðandi aðgengi þjónustunnar er ljóst að biðtími er innan marka í vissum sérgreinum en of langur í öðrum. Lenging sem kemur ekki á óvart í ljósi áhrifa faraldursins. Aðrir mælikvarðar eru að hluta innan viðmiða en einnig ljóst að á nokkrum sviðum þarf að vinna að umbótum svo sett viðmið náist.

Það er gott og þarft að geta þess sem vel er gert. Í vikunni hafði samband við mig fólk sem hafði verið hjá okkur nýlega og vildi koma á framfæri upplifun sinni á því jákvæða og vingjarnlega andrúmslofti sem og viðmóti sem þau mættu frá öllum sem þau áttu samskipti við. Allir sem einn höfðu lagt sig fram um að veita sem besta þjónustu. Hafið öll bestu þakkir fyrir ykkar góðu störf.

Bólusetning við Covid-19 fer væntanlega af stað í byrjun nýs árs. Sjúkrahúsið hefur sett á fót vinnuhóp um undirbúning og framkvæmd bólusetninga hér á sjúkrahúsinu. Horft er til þess að bólusetja starfsmenn í samræmi við forgangsröðun stjórnvalda sem og inniliggjandi sjúklinga sem tilheyra forgangshópum á þeim tíma sem bólusetning fer fram. Miðað er við að framkvæmda- og aðgerðaáætlun verði tilbúin fyrir jól.          

Höldum áfram að fylgja þeim leiðbeiningum og reglum yfirvalda og viðbragsstjórnar og hugum vel að persónulegum sóttvörnum. Þannig tryggjum við öryggi sjúklinga og starfsmanna.  

Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI 

Bestu kveðjur og góða helgi

Bjarni Jónasson


Sjúkrahúsið á Akureyri

Eyrarlandsvegi
IS 600 Akureyri

Sími +354 4630100 / Fax +354 4624621

Kt. 580269-2229

sak@sak.is 

Skiptiborð

s.

463 0100

Vaktlæknir

s.

1700

Neyðarlínan

s.

112