Í starfs- og rekstraráætlun fyrir árið 2020 er miðað við að starfsemi sjúkrahússins verði með svipuðu sniði og á síðasta ári. Átaksverkefni til að stytta biðlista eftir aðgerðum verður fram haldið. Eins og áður mun sjúkrahúsið fá sérstaklega greitt fyrir þátttöku í því verkefni.
Forsendur fjárlaga gera ráð fyrir að rekstrarkostnaður hækki um 3% frá fyrra ári vegna launagjalda en 3,2% vegna almennra rekstrargjalda og sértekna. Raunaukning fjárveitinga til sjúkrahússins aukast um 1,8% til að mæta aukinni þjónustuþörf en jafnframt er gerð 0,5% hagræðingarkrafa og því er um að ræða 1,3% raunvöxt fjárveitinga. Að auki fengust 54 mkr. til styrkingar rekstrargrunns og 48 mkr. í tilgreind verkefni og 73,5 mkr. vegna flutnings heimahlynningar til sjúkrahússins. Því miður fara auknar fjárveitingar að mestu til að mæta þeim halla sem er á rekstrargrunni sjúkrahússins árið 2019. Heildarútgjöld ársins eru áætluð 9.559 milljónir eða 26,2 milljónir að meðaltali dag hvern, þar af er áætlaður launakostnaður um 20 milljónir.
Viðamestu framkvæmdirnar verða endurbætur á sjúkrahúsapóteki til að uppfylla kröfur sem gerðar eru til slíkrar starfsemi í dag. Þá verður endurnýjun á aðalrafmagnstöflunni lokið, unnið að viðhaldi loftræsikerfis, brunavarna og eldvarnaloka auk annara smærri verkefna.
Fjárveiting til stærri og smærri tækjakaupa hefur verið sett saman í eina fjárveitingarupphæð sem er samtals 207,9 mkr.
Unnið verður áfram í samræmi við megináherslur stefnuskjalið Stefna og framtíðarsýn til 2021, SAk fyrir samfélagið og áherslur Heilbrigðisstefnu 2030.
Gæðamálin skipa eins og áður stóran sess í starfseminni. Unnið verður í samræmi við ISO 9001:2015 staðalinn og International Accreditation for Hospitals staðli DNV-GL. ISO 27001:2013 upplýsingaöryggisstaðli og IST 85 jafnlaunastaðli. Innleiðingu á straumlínustjórnun (LEAN) verður haldið áfram.
Gert er ráð fyrir að tekjur og gjöld í áætluninni verði í jafnvægi og í samræmi við fjárlög í heildina. Það er áskorun að halda úti því þjónustustigi sem við viljum veita innan ramma fjárheimilda. En með góðri samvinnu og útsjónarsemi náum við árangri.
Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI
Bestu kveðjur og góða helgi.
Bjarni Jónasson