Starfsemistölur fyrstu fimm mánuði ársins endurspegla vel þau áhrif sem COVID-19 faraldurinn hefur haft á hefðbundna starfsemi sjúkrahússins. Miðað við sama tímabil á síðasta ári fækkaði komum á dagdeildir um ríflega 13% og göngudeildarkomum um 25%. Komur á bráðamóttöku voru um 19% færri. 12% fækkun var á sjúkraflugi. Skurðaðgerðir voru um 540 færri eða um 30%. Fæðingar voru 146 og fækkaði um 12 frá fyrra ári. Þá fækkaði legudögum um 17% og rannsóknum fækkaði á bilinu 12-25%.
Nú þegar landið verður opnað á ný getum við átt von á að fá til okkar einstaklinga með grun um smit eða smitaða. Á sama tíma og við vonum að ekki komi til þess þá erum við í stakk búin til að taka þeirri áskorun.
Biðlistar og biðtímar eftir aðgerðum hafa eðlilega lengst í „kófinu“ og ljóst að nokkurn tíma tekur að vinda ofan af þeim. Það er því full ástæða til að bera kvíðboga fyrir boðuðu verkfalli hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar eru lykilstétt í allri þjónustu við sjúklinga og ljóst að áhrif verkfalls á þjónustuna verða mikil. Raunar það mikil að starfsemin mun eingöngu snúast um bráðastarfsemi ef af verður.
Því er skorað á deiluaðila að ná samkomulagi sem fyrst áður en til verkfalla kemur.
Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI
Bestu kveðjur og góða helgi.
Bjarni Jónasson