Nú eru sumarleyfi landsmanna og starfsmanna í hámarki. Það sem af er sumri hefur starfsemin verið í þokkalegu jafnvægi en nokkrir mjög krefjandi álagstoppar komið inn á milli. Þetta sumar má telja erlenda ferðamenn sem hingað leita á fingrum sér sem er vissulega nokkur viðbrigði frá því sem áður hefur verið. Eins og áður hefur samstillt átak og góð samvinna deilda einkennt starfið. Þar höfum við m.a. notið góðs af því góða fólki sem hefur komið inn í sumarafleysingar og unnið gott starf með góðum stuðningi frá reyndari starfsmönnum. Hafið öll kærar þakkir fyrir.
Í ár hefur sumartíminn nýst vel til nokkurra stærri viðhalds- og endurbótaverkefna. Unnið hefur verið að utanhúsmálun, endurbótum á aðstöðu blóðskilunar og nú eru í gangi stórar endurbætur á skurðstofuhúsnæði. Síðar í sumar verður svo hafist handa við byggingu hjólaskýlis fyrir starfsfólk.
Á sumarleyfistímanum er minni áhersla á stærri verkefni sem til lengri tíma bæta þjónustu, vinnulag og vinnuumhverfi. Það eru þó verkefni sem m.a. tengjast Gæðingnum þar sem við þurfum eftir fremsta megni að halda takti og fylgja eftir eins og mögulegt er og ýmis smærri verkefni sem straumlínulaga vinnulag og bæta árangur okkar þjónustu.
Höldum áfram að njóta sumarsins hvort heldur við erum við störf eða úti í góða veðrinu.
Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI
Bestu kveðjur og góða helgi
Bjarni Jónasson