Í lok desember komu niðurstöður úr könnun Gallup þar sem íbúar á Norður- og Austurlandi eru spurðir um traust til Sjúkrahússins á Akureyri og viðhorf til þjónustu þess. Skemmst er frá því að segja að 85% íbúanna bera mikið traust til Sjúkrahússins á Akureyri og 88% þeirra sem höfðu nýtt sér þjónustuna sl. 12 mánuði voru ánægðir með hana. Þegar horft er til trausts stofnana sem Gallup mælir í þjóðarpúlsi sínum skorar einungis ein stofnun hærra, Landhelgisgæslan með 89%. Er þetta áþekk niðurstaða og fyrir ári síðan þegar sama könnun var lögð fyrir. Eins og alltaf þá eru tækifæri til að gera betur. Helsta ástæða þess að svarendur eru óánægðir með þjónustuna er „langur biðtími“ og „léleg þjónusta“. Helsta ástæða þess að svarendur eru ánægðir með þjónustuna er „góð þjónusta“ og „frábært/gott starfsfólk“. Könnunin er góður vitnisburður um það góða starf sem hér er unnið. Hafið bestu þakkir fyrir.
Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI
Bestu kveðjur og góða helgi
Bjarni Jónasson