Ágætu samstarfsmenn!
Síðustu tvær vikur hafa verið annasamar vegna covid faraldursins. Segja má að þriðja bylgja faraldursins hafi farið á flug á okkar nærsvæði um miðjan október og vonumst við til að hún hafi náð hápunkti í fjölda smitaðra um síðustu helgi. Göngudeildarþjónusta fyrir Covid-19 smitaða var opnuð og viðbúnaður fyrir innlagnarsjúklinga virkjaður. Þá var valkvæðri þjónustu frestað um 2 vikur. Fyrstu Covid-19 smituðu sjúklingarnir lögðust inn á sjúkrahúsið að kvöldi föstudagsins 30. október og þegar mest var voru 6 sjúklingar inniliggjandi. Nú eru 2 sjúklingar inniliggjandi og þar af einn á gjörgæslu.
Þegar svona bylgja gengur yfir hefur hún verulega íþyngjandi áhrif á alla. Við höfum misst starfsmenn í sóttkví og einning í einangrun og sjúklingar hafa þurft að bíða lengur eftir nauðsynlegri þjónustu. Allt þetta kallar á aukna vinnu við endurskipulagningu þjónustu og starfsemi. Allir hafa lagt sig fram um að láta þetta ganga upp. Kærar þakkir fyrir góð og vel unnin störf.
Það er alltaf upplífgandi að finna fyrir velvilja samfélagsins. Á síðustu dögum hafa komið gjafir frá Ekrunni og Ölgerðinni sem létt hafa lund og stund starfsmanna sem unnið hafa við meðferð Covid-19 smitaðra. Ég færi þessum aðilum bestu bestu þakkir fyrir höfðingsskap og hlýhug.
Í ljósi breyttra fyrirmæla landlæknis sem ráðherra hefur samþykkt og þess að faraldurinn virðist vera að dvína á nærsvæðinu hefur verið ákveðið að hefja aftur valaðgerðir á sjúkrahúsinu frá og með mánudeginum 16. nóvember. Sama gildir um aðra valþjónustu, þ.m.t. göngudeildarþjónustu. Það er mikilvægt að taka upp þráðinn á ný en jafnframt ljóst að nokkurn tíma tekur að vinna niður þá biðlista sem óhjákvæmilega hafa lengst vegna þessa ástands. En um 75-80 aðgerðum þurfti að fresta þessa daga auk röskunar á göngudeildarstarfseminni. Það er full ástæða til að þakka sjúklingum og aðstandendum þeirra fyrir þolinmæði og skilning vegna þessa.
Höldum áfram að fylgja þeim leiðbeiningum og reglum yfirvalda og viðbragsstjórnar og hugum vel að persónulegum sóttvörnum. Þannig tryggjum við öryggi sjúklinga og starfsmanna.
Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI
Bestu kveðjur og góða helgi
Bjarni Jónasson