Það var ánægjulegt að fylgjast með fræðslufundi almennu göngudeildarinnar í vikunni, sjá hér. Þar kom vel fram sú breidd sem er í þjónustu deildarinnar en einnig sú mikla sérhæfing sem í starfseminni felst. Starfsemi deildarinnar, sem tók til starfa 2007, hefur vaxið ár frá ári. Meltingarmóttaka og minnismóttaka eru dæmi um nýja þjónustu við sjúklingahópa og í burðarliðnum er þjónusta við ME (síþreyta) sjúklinga. Heimahlynning er hluti af starfsemi deildarinnar og þar er verið að byggja upp miðlæga þekkingarmiðstöð líknarmeðferðar fyrir okkar megin þjónustusvæði. Öll þjónusta deildarinnar byggist á þverfaglegri teymisvinnu þar sem verið er að beita nýjustu lyfjameðferðum og aðferðum við meðhöndlun og eftirlit s.s. fjarvöktun sjúklinga með rafrænum lausnum. Þessi starfsemi er enn eitt dæmið um þann faglega metnað sem hér ríkir til að veita íbúum viðeigandi og öfluga heilbrigðisþjónustu sem næst búsetu sinni. Vel gert.
Starfsemi fyrstu tvo mánuði ársins fer vel af stað. Legudagar á bráðadeildum eru með áþekkum hætti og á sama tíma í fyrra. Sama má segja um komur á dag- og göngudeildir, rannsóknir og skurðaðgerðir. Fæðingar eru fleiri eða 82 en voru 54 á síðasta ári. Komum á bráðamóttöku fækkar um 8% og fjöldi sjúkrafluga var 95 en voru 111 árið áður.
Nú er um ár síðan fyrsti Covid-19 smitaði sjúklingur lagðist inn á SAk en það var 26. mars. Nú er áherslan á bólusetningar og stór hluti klínískra starfsmanna hefur þegar verið bólusettur. Það breytir því ekki að við þurfum áfram að halda vöku okkar og gæta að sóttvörnum. Það er ekki búið fyrr en það er búið eins og maðurinn sagði.
Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI
Bestu kveðjur og góða helgi
Bjarni Jónasson