Sérhæfðar bakaðgerðir á SAk

Sérhæfðar bakaðgerðir á SAk Alþjóðlegt samstarf um sérhæfðar bakaðgerðir hefur skilað góðum árangri og sjúklingar hafa fengið þjónustu hér í stað þess að

Sérhæfðar bakaðgerðir á SAk

Bjarni Jónasson, forstjóri
Bjarni Jónasson, forstjóri

Alþjóðlegt samstarf um sérhæfðar bakaðgerðir hefur skilað góðum árangri og sjúklingar hafa fengið þjónustu hér í stað þess að þurfa að leita meðferðar erlendis. 

Frá árinu 2014 hefur verið byggð upp starfsemi fyrir flóknar bakaðgerðir á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Keyptur hefur verið nýr og fullkominn tækjabúnaður og verkfæri sem nýtist fyrir slíkar aðgerðir m.a. röntgentæki á skurðstofu sem geta skannað sjúklinga og staðfest legu á ígræðum í baki. Hollvinasamtök SAk gáfu sérhæft skurðarborð sem auðveldar allar bakaðgerðir og minnkar blæðingar og bætir legu sjúklinga í löngum aðgerðum.  Þetta hefur  auðveldað vinnu við aðgerðir og skapað aðstæður til að gera flóknar aðgerðir öruggari.

Frá og með 2016 hefur Bjarki Karlsson bæklunarskurðlæknir, í samstarfi við Frey Gauta Sigmundsson hryggjarskurðlækni í Svíþjóð gert flóknar bakaðgerðir á SAk. Sjúklingar alls staðar af landinu hafa farið í þessar flóknu aðgerðir sem oftast fara einungis fram á stórum háskólasjúkrahúsum erlendis.  Lykillinn að þessu góða samstarfi hefur verið gott skipulag og vel þjálfað starfsfólk sem að þessum aðgerðum hefur komið.

Með samningum við Sjúkratryggingar Íslands á síðasta ári var farið að gera stórar hryggskekkjuaðgerðir. Aðgerðir þar sem bakið er rétt til vegna mikilla slitbreytinga og hryggskekkju. Til þess að fylgjast náið með mænunni og taugum við aðgerðina hefur verið leigð svokölluð taugayfirvaka frá Svíþjóð. Þá kemur fulltrúi fyrirtækisins frá Svíþjóð og tengir sjúklinginn en taugafræðingurinn situr og fylgist með í Þýskalandi og talar við skurðlæknana.  Á þennan hátt er hægt að fylgjast með mænu og taugum þegar mikið álag er lagt á bakið þegar það er rétt við.  Sérstaka svæfingaraðferð þarf við þessi tilfelli sem eykur kröfurnar á svæfingalækna og hjúkrunarfræðinga. Þá þarf einnig að gera sérstakar röntgenrannsóknir fyrir þessar aðgerðir en þekking á þeim hefur verið byggð upp samhliða þessum aðgerðum.

Þetta alþjóðlega samstarf hefur skilað góðum árangri og sjúklingar hafa fengið þjónustu hér í stað þess að þurfa að leita meðferðar erlendis. Jafnframt hefur þessi starfsemi aukið framþróun og sérþekkingu á sjúkrahúsinu.  Þessi metnaðarfulla starfsemi sýnir vel hve öflugur hópur heilbrigðisstarfsmanna vinnur hér. Við getum öll verið stolt af því starfi sem hér er unnið.

Munum: ÖRYGGI – SAMVINNA - FRAMSÆKNI 

Bestu kveðjur og góða helgi

Bjarni Jónasson


Sjúkrahúsið á Akureyri

Eyrarlandsvegi
IS 600 Akureyri

Sími +354 4630100 / Fax +354 4624621

Kt. 580269-2229

sak@sak.is 

Skiptiborð

s.

463 0100

Vaktlæknir

s.

1700

Neyðarlínan

s.

112